Reynir með öll mörk KFR

Knattspyrnufélag Rangæinga tók á móti KFS frá Vestmannaeyjum í opnunarleik 3. deildar karla í dag og sigruðu heimamenn örugglega, 3-1.

Rangæingar komust yfir strax á 8. mínútu með marki Reynis Björgvinssonar en fyrri hálfleikur var jafn og bæði lið þreifuðu fyrir sér. KFS jafnaði leikinn á 26. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Reynir gerði síðan út um leikinn með tveimur mörkum í upphafi seinni hálfleiks og kórónaði hann þar með þrennu sína. Rangæingar voru sterkari í seinni hálfleik og fengu fleiri færi en mörkin létu á sér standa.