Reynir jafnaði í blálokin

Hamar heimsótti Reyni í Sandgerði í toppslagnum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem heimamenn jöfnuðu á 94. mínútu.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en þrátt fyrir álitlegar sóknir tókst hvorugu liðinu að koma boltanum í netið.

Staðan var 0-0 í hálfleik en Haraldur Hróðmarsson kom Hamri yfir þegar rúmar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Eftir mark Hamars sóttu Reynismenn í sig veðrið án þess að ná að skora og allt virtist stefna í sigur Hamars.

Þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma tóku Reynismenn langt innkast inn í vítateiginn þar sem boltanum var flikkað áfram og lenti hann fyrir fótum Magna Jóhannssonar sem skoraði með góðu skoti. Þetta var síðasta spyrna leiksins því dómarinn flautaði af strax eftir að Hamar tók miðju.

Hamar er í efsta sæti deildarinnar með 25 stig, Höttur er í 2. sæti með 23 stig og á leik til góða. Reynir er í 3. sæti með 22 stig.

Fyrri greinÁrborg steinlá heima
Næsta greinHaukur fyrsti meistari mótsins