Reyndum að halda okkur á jákvæðu nótunum

Sverrir Pálsson, Karolis Stropus og Einar Sverrisson voru grimmir í hávörninni hjá Selfyssingum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sinn fyrsta sigur í Olísdeild karla í handbolta í vetur þegar Grótta kom í heimsókn í Set-höllina í kvöld. Lokatölur urðu 28-27.

„Meira en sáttur að vera kominn á blað. Þetta var ekki fallegasti sigurinn en hann var afar mikilvægur. Þetta hefur verið mjög erfitt á móti Gróttu síðustu ár, í minningunni allavega, og alltaf verið hörkuleikir. Við áttum von á þessu og vissum að við þyrftum að vera þolinmóðir. Við reyndum bara að halda okkur á jákvæðu nótunum og vera hvetjandi og standa saman og vonandi er það bara eitthvað sem við tökum með okkur í næsta leik,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Kaflaskiptur leikur
Selfoss skoraði tvö fyrstu mörkin en svo tóku Gróttumenn við sér og höfðu frumkvæðið lengst af fyrri hálfleiknum. Selfyssingar töpuðu mörgum boltum og fengu mörk í andlitið en Grótta náði mest þriggja marka forskoti. Staðan í hálfleik var 14-15.

Það var jafnt á öllum tölum fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik en Selfyssingar náðu smátt og smátt undirtökunum og reyndust sterkari á lokakaflanum, þó að munurinn væri aldrei meiri en eitt mark. Grótta átti síðustu sókn leiksins en hún rann út í sandinn og Selfyssingar fögnuðu sigri.

Einar með stórleik
Einar Sverrisson var frábær í liði Selfoss í kvöld en hann var markahæstur með 10/4 mörk og frábæra skotnýtingu. Atli Ævar Ingólfsson nýtti sín skot sömuleiðis vel og skoraði 7 mörk, Guðmundur Hólmar Helgason 3 og þeir Richard Sæþór Sigurðsson, Guðjón Baldur Ómarsson, Sverrir Pálsson og Ísak Gústafsson skoruðu allir 2 mörk en Ísak átti 4 stoðsendingar að auki og Sverrir var firnasterkur í vörninni með 4 lögleg stopp.

Vilius Rasimas átti sömuleiðis góðan leik og varði 16/1 skot í marki Selfoss.

Fyrri greinUnnur og Kristrún framlengja á Selfossi
Næsta greinDean Martin stýrir Selfyssingum áfram