Reyna að koma lífi í grasvöllinn

Undirbúningur fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu í fullum gangi á JÁVERK-vellinum á Selfossi en að sögn Sveinbjörns Mássonar, framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar Selfoss, kemur völlurinn ekki nógu vel undan vetri.

Í dag var unnið að því að breiða akrýldúk yfir völlinn til þess að koma meiri hita í svörðinn.

“Völlurinn kemur misvel undan vetri, á sumum stöðum er hann mjög góður en á stórum köflum er hann kalinn og illa farinn. Þetta er vandamál víða á knattspyrnuvöllum og menn eru ekki sammála því hvað veldur, en veturinn var vellinum erfiður,” sagði Sveinbjörn í samtali við sunnlenska.is.

“Það er auðvitað bara apríl ennþá en völlurinn hefur oft verið í betra standi á sama tíma. Það kólnar enn mikið á nóttunni og þess vegna erum við að breiða dúkinn yfir hann til þess að halda sólarhitanum lengur í vellinum og komum þannig vonandi lífi í hann.”

Selfyssingar hefja leik á Íslandsmótinu þann 7. maí næstkomandi þegar Leiknir Fáskrúðsfirði kemur í heimsókn. Sveinbjörn segir að menn ætli ekki að tefla í tvísýnu varðandi grasvöllinn í upphafi móts og því fer fyrsti leikur fram á gervigrasinu.

Reiknað er með að grasvöllurinn verði tilbúinn fyrir fyrsta heimaleik kvennaliðsins, sem er gegn Stjörnunni þann 18. maí og tveimur dögum síðar spilar karlaliðið gegn Leikni Reykjavík.