Reiknað með metaðsókn í Hengil Ultra

Ljósmynd/Hengill Ultra

Skráningar hófust í utanvegahlaupið Hengill Ultra fyrir skömmu og má segja að sannkallað utanvegahlaupaæði hafi gripið um sig á Íslandi.

Á nokkrum dögum hafa um 600 keppendur skráð sig til leiks en hlaupið fer fram í Hveragerði dagana 4. til 5. júní 2021. Hengill Ultra var fyrst hlaupið árið 2012 og þetta verður því í tíunda sinn sem hlaupið fer fram. Í þessi tíu ár hefur hlaupið þróast og umgjörð þess vaxið á milli ára en hlaupið í sumar sprengdi öll fyrri met en þá voru um 700 þátttakendur.

Sex vegalengdir eru í boði; 5 km, 10 km, 26 km, 53 km, 106 km og nú í fyrsta skipti 160 km, eða 100 mílna hlaup.

Skipuleggjendur gera ráð fyrir því að aðsóknarmet verði slegið árið 2021 og reikna með um eitt þúsund þátttakendum.

„Við erum að passa það að keppnin vaxa ekki of hratt. Við höfum lagt mikla áherslu á það að vinna þetta í mjög nánu sambandi við íbúa og stjórnendur í Hveragerði. Til þessa höfum við fundið fyrir frábærum meðbyr og miklum vilja til að styðja við verkefnið. Í sumar sem leið leyfi ég mér að fullyrða að við „opnuðum“ bæinn eftir erfiðan Covid vetur. Margir veitingastaðir og hótel fóru á fullt skrið aftur þessa helgi og það var frábært að finna það að hlaupið var að skila viðskiptum í nær samfélagið. Næsta sumar gerum við enn betur,“ segir Þórir Erlingsson, mótstjóri Víkingamótanna.

Hengill Ultra er hluti af Víkingamóta röðinni en henni tilheyra líka KIA Gullhringurinn sem hjólaður er á Suðurlandi, Eldslóðin utanvegahlaup og Landsnet MTB fjallahjólakeppni sem báðar fara fram í Heiðmörk við Reykjavík.

Fyrri greinSveitarstjórn Bláskógabyggðar ítrekar mikilvægi búfjárvarnarlína
Næsta grein56 í einangrun á Suðurlandi – Flestir í Árborg