Rauða ljónið og rakarinn spá í spilin

Spennan vex fyrir leik Selfoss og KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu á sunnudaginn. KR-ingurinn Bjarni Felixson mætti í rakarastólinn hjá Kjartani Björnssyni í gær þar sem þeir spáðu í spilin fyrir leikinn.

Í upphafi var Bjarni á því að leikurinn færi 1-2 fyrir KR en eftir umræðu og spekúleringar endaði spá hans í 2-2 og hörkuleik. Kjartan rakari stendur hins vegar staðfastur á því að leikurinn endi með 3-2 sigri Selfoss.

Bjarni mun lýsa leiknum á sunnudag í sameiginlegri útsendingu Suðurland FM og KR-útvarpsins og verður mikið um dýrðir á Selfossvelli.

Leikurinn hefst kl. 18 en frá kl. 16 verður fjölskylduhátíð Stuðningsmannaklúbbs Selfoss, hoppukastali, pylsur og kókómjólk auk þess sem hamborgaragrill stuðningsmannanna verður á sínum stað. Allir nemendur grunnskólanna á Selfossi munu fá sérstaka boðsmiða á leikinn en Ölgerðin verður með uppákomur í kringum leikinn, m.a. boltaþrautir í hálfleik.

Þá ætlar Sunnlenska fréttablaðið að bjóða 120 áskrifendum sínum á leikinn. Slegið verður upp tjaldi við Selið sem opnar kl. 16:30 en þar verður hægt að nálgast miðana auk þess sem boðið verður upp á hressingu.

Liðin tvö eru að berjast á sitthvorum endanum á stigatöflunni, KR eltir FH í toppbaráttunni á meðan Selfoss berst fyrir tilveru sinni í deildinni í æsispennandi fallbaráttu.

Fyrri greinSendir kominn upp í Eyjum
Næsta greinSöluhelgi aðildarfélaga Krabbameinsfélagsins