Rangárþing ytra endurnýjar samstarfssamning við Heklu

Guðmundur Jónasson formaður Umf. Heklu og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, undirrituðu samninginn. Ljósmynd/RY
Á dögunum endurnýjaði Rangárþing ytra samstarfssamning við Ungmennafélagið Heklu.
Hekla heldur úti fjölbreyttum æfingum fyrir yngri aldurshópa og má þar nefna frjálsar íþróttir, línuskauta, körfubolta, tækwondo, fimleika og blak.
Samningnum er ætlað að efla samstarf milli sveitarfélagsins og ungmennafélagsins, viðhalda öflugu og fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi fyrir grunnskólabörn í sveitarfélaginu og treysta starfsemi Heklu. Iðkendur hjá Heklu í Rangárþingi ytra á aldrinum 18 ára og yngri erum um 160.

Samningurinn hljóðar uppá árlega greiðslu til Heklu að upphæð rúmlega 2,7 milljónum króna, auk allrar aðstöðu sem félagið þarf til íþróttaiðkunar í samráði við forstöðumann íþróttamiðstöðvar. Samningurinn tekur við af eldri samningi sem rann út í lok árs 2019.

Viðbygging við íþróttahúsið á Hellu, sem hýsir m.a. áhaldageymslu, hefur eflt starfsemi Umf. Heklu sem og auka salur sem þar er.

Fyrri greinEllefu sunnlenskir jólabjórar á markaðnum
Næsta greinFékk gullverðlaun fyrir að segja brandara í Pylsuvagninum