Rangárþing Ultra um næstu helgi

Fjallahjólakeppnin Rangárþing Ultra fer fram í þriðja sinn, föstudaginn 14. júní næstkomandi.

Keppnin er samstarfsverkefni Rangárþings eystra og Rangárþings ytra og skipst er á að hefja keppni á Hellu og Hvolsvelli.

Að þessu sinni er ræst frá Hellu kl 19:00 og hjólað yfir á Hvolsvöll án viðkomu á þjóðveg 1. Hjóluð er 50 km löng leið, 14 km á malbiki, 22km á möl og 14 km á slóðum.

Nú þegar hafa um 80 manns skráð sig til keppni en enn er hægt að skrá sig á heimasíðu keppninnar á www.rangarthingultra.is . Skráningarfrestur er til 23:30 fimmtudagskvöldið 13. júní og vonast keppnishaldarar til að sjá sem flesta, enda lofar veðurspáin góðu.

Veitt eru verðlaun í fjórum flokkum, bæði karla og kvenna og mikill keppnisandi ríkir ár hvert, enda margir af bestu hjólreiðamönnum og konum landsins nú þegar skráð til leiks.

Helsti styrktaraðili keppninnar er Sláturfélag Suðurlands sem sér um að metta keppendur og áhorfendur en að keppninni koma einnig björgunarsveitir í Rangárvallasýslu, starfsmenn sveitarfélaganna, íþróttafélög og íbúar.

Eftir keppni bjóða bæði sveitarfélögin upp á frítt í sund fyrir keppendur og aðstandendur.

Fyrri greinSýningunni Litla-Hraun lýkur
Næsta greinVegi lokað við Ljótapoll