Rangárþing ytra sigraði í sundkeppninni

Rangárþing ytra bar sigur úr býtum í sundkeppni sveitarfélaganna, en keppnin var hluti af Hreyfiviku UMFÍ sem lauk um síðustu helgi.

Íbúar Rangárþings ytra hafa aldrei verið jafn duglegir að sækja sundlaugina á Hellu. Mikil stemmning skapaðist um sundkeppnina en íbúar syntu samtals 311,5 km sem gera 375 metra á hvern íbúa í sveitarfélaginu.

Í öðru sæti varð Rangárþing eystra (Hvolsvöllur) með 279 metra á hvern íbúa og í þriðja sæti urðu íbúar í Hrísey með 250,5 metra á hvern íbúa. Hvað varðar samanlagða synta kílómetra þá syntu íbúar á Akureyri samtals 458 km og Rangárþing ytra kom næst með 311,5 km.

Hugmyndin að sundkeppninni kom frá Fjallabyggð og Norðurþingi.

Þátttakendur af sambandssvæði HSK:

1. Rangárþing ytra (Hella) 375 m á hvern íbúa. Samtals 311,5 km.
2. Rangárþing eystra (Hvolsvöllur) 279 m á hvern íbúa. Samtals 260,5 km.
19. Hveragerði 35 m á hvern íbúa. Samtals 83,5 km.
20. Þorlákshöfn 31 m á hvern íbúa. Samtals 45,5 km.
21. Árborg 30 m á hvern íbúa. Samtals 205 km.
28. HNLFI sundlaug Hveragerði 13,3 m á hvern íbúa. Samtals 32 km.

Miðað var við fjölda íbúa í hverjum í byggðarkjarna frá Hagstofu Íslands og synta metra samtals.