Rangæingar sterkari á svellinu

Rangæingar stóðu þétt saman í kvöld. Myndin er reyndar úr safni. Ljósmynd/KFR

KFR lauk keppni í Lengjubikar karla í knattspyrnu þetta vorið með öruggum sigri á Skautafélagi Reykjavíkur í kvöld á gervigrasinu á Selfossi.

SR komst yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Óliver Jóhannsson jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Þegar leið á seinni hálfleikinn hertu Rangæingar tökin og þeir bættu við fjórum mörkum á tuttugu mínútna kafla. Sveinn Skúli Jónsson kom af varamannabekknum og skoraði tvö mörk og Unnar Jón Ásgeirsson skoraði sömuleiðis tvisvar.

Lokatölur 5-1 og KFR endaði í 2. sæti riðils 4 í C-deildinni, tveimur stigum á eftir toppliði Álftaness og einu stigi á undan nágrönnum sínum í Uppsveitum.

Fyrri greinHamar varði bikarmeistaratitilinn
Næsta greinD-listinn í Rangárþingi eystra samþykktur