Rangæingarnir tryggðu Íslandi sigur

Rangæingarnir Hólmfríður Magnúsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk Íslands í 0-2 sigri á Norður-Írum í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í kvöld.

Sigurinn var sannfærandi en mörkin komu með tveggja mínútna millibili fyrir hlé.

Mark Hólmfríðar kom á 39. mínútu eftir hornspyrnu Dóru Maríu Lárusdóttur. Þvaga myndaðist í vítateig Norður-Íra og skaut Ólína G. Viðarsdóttir boltanum í Hólmfríði og þaðan fór hann í netið.

Mark Dagnýjar kom á 41. mínútu og var laglegt skallamark úr vítateignum eftir fyrirgjöf Hallberu Guðnýjar Gísladóttur frá vinstri. Þetta var fyrsta mark Dagnýjar fyrir A-landsliðið.

Dagnýju og Hólmfríði var báðum skipt útaf undir leikslok, Dagnýju á 78. mínútu og Hólmfríði á 89. mínútu.

Íslendingar eru efstir í riðlinum með 13 stig eftir fimm leiki en Norðmenn eru með 6 stig í 2. sæti eftir 0-1 sigur á Belgum í kvöld.

Fyrri greinHarður árekstur á Skálholtsvegi
Næsta greinFylgjast vel með skjálftum við Húsmúla