Rangæingar vöknuðu í lokin

Knattspyrnufélag Rangæinga beið lægri hlut þegar liðið mætti Létti í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 2-1.

Þarna mættust tvö efstu liðin í B-riðlinum en Léttismenn voru mun sterkari í fyrri hálfleik og yfirspiluðu Rangæinga á köflum. Það syrti svo enn frekar í álinn hjá KFR þegar framherjinn Reynir Björgvinsson fór meiddur af velli en hann var tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla.

Þrátt fyrir mótlætið stóðu Rangæingar af sér storminn í fyrri hálfleik og staðan var 0-0 í leikhléinu.

Léttismenn komust í 2-0 í seinni hálfleik eftir klaufaskap í vörn KFR en Rangæingar vöknuðu ekki til lífsins fyrr en þeir voru komnir tveimur mörkum undir. Þeir áttu ágæta spretti undir lokin og Helgi Ármannsson náði að minnka muninn á lokakaflanum.

KFR hefði getað bætt við marki en þegar upp var staðið var sanngjarn sigur Léttis staðreynd.

Þrátt fyrir tapið er KFR enn í 2. sæti riðilsins með 9 stig, þremur stigum á eftir Létti og þremur á undan Ými, Ægi, KFS og KV. KFR hefur hins vegar leikið einum leik meira en öll hin liðin.

Fyrri greinSelfoss upp í 2. sætið
Næsta greinSjö mörk Ægis á hálftíma