Rangæingar réðu ferðinni

KFR vann góðan 0-2 sigur á nágrönnum sínum í KFS þegar liðin mættust á Þórsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld.

Rangæingar komust yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en þar var að verki Andrezej Jakimczuk. Rangæingar héldu boltanum betur úti á velli og áttu nokkur ágæt færi en KFS átti líka tvö dauðafæri í fyrri hálfleik auk þess sem þeir áttu að fá eina vítaspyrnu.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks bætti Þórhallur Lárusson við öðru marki fyrir KFR og staðan var 0-2 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var jafnari og bæði lið fengu góð færi til að bæta við mörkum en lokatölur urðu 0-2.

Þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni er KFR í 3. sæti með 22 stig en KV er á toppnum með 25 stig og Léttir í 2. sæti með 21. KFR mætir toppliði KV í næstu umferð.

Fyrri greinTvö mörk Ægis á lokamínútunum
Næsta greinMenningin blómstrar á Sólheimum