„Rangæingar eru vanir að skora í Eyjum“

Knattspyrnufélag Rangæinga gerði góða ferð til Vestmannaeyja í dag þar sem liðið lagði KFS 0-2 í 3. deild karla í knattspyrnu.

„Þetta var hörkugóður leikur af okkar hálfu. Við byrjuðum vel og vorum óheppnir að skora ekki. Ég var samt rólegur þar sem Rangæingar eru vanir að skora í Eyjum, þessa helgi eða aðra,“ sagði Guðmundur Garðar Sigfússon, þjálfari KFR í samtali við sunnlenska.is.

Þolinmæðisvinna KFR skilaði sér líka, því á 43. mínútu kom fyrirliðinn Hjörvar Sigurðsson þeim yfir með föstu skoti úr teignum eftir hornspyrnu.

Staðan var 0-1 í hálfleik og þannig stóðu leikar allt fram á 82. mínútu að Hjörvar bætti við öðru marki eftir góða sendingu frá Hjalta Kristinssyni og innsiglaði þar með sigur sinna manna.

„KFS komst meira inn í leikinn í seinni hálfleik en þeir ógnuðu okkur ekki að ráði nema í föstum leikatriðum. Við sigldum þessu nokkuð örugglega heim,“ sagði Guðmundur Garðar ennfremur.

Eftir leiki dagsins er KFR í 2. sæti deildarinnar með 6 stig eins og Magni, en Rangæingar hafa lakara markahlutfall.

Fyrri greinTilþrifalítill tapleikur í Ólafsvík
Næsta grein„Við létum boltann flæða“