Rangæingar réðu ekki við Fjarðabyggð

Knattspyrnufélag Rangæinga fékk Fjarðabyggð í heimsókn í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. Fjarðabyggð vann öruggann 2-5 sigur og fór í toppsæti deildarinnar en KFR er í 7. sæti.

Gestirnir réðu lögum og lofum framan af leiknum og eftir aðeins fimmtán mínútna leik var staðan orðin 0-3 en gestirnir skoruðu þrívegis á sex mínútna kafla. Reynir Björgvinsson minnkaði muninn á 25. mínútu. Styrmir Erlendsson stakk þá boltanum inn á Reyni sem kláraði færið vel einn á móti markmanni. Staðan var 1-3 í hálfleik.

Fjarðabyggð bætti fjórða markinu við á þriðju mínútu síðari hálfleiks og ekki bætti það stöðu Rangæinga þegar Styrmir fékk að líta sitt annað gula spjald á 65. mínútu fyrir brot og heimamenn því manni færri það sem eftir lifði leiks.

Fjarðabyggð komst í 1-5 á 84. mínútu en þjálfari KFR, Guðmundur Garðar Sigfússon, klóraði í bakkann fyrir sína menn með marki beint úr aukaspyrnu á 86. mínútu og lokatölur leiksins voru 2-5.

Fyrri greinFjóla varð þrettánda á Madeira
Næsta greinEngin hreppsnefnd lengur hjá Hrunamönnum