Rangæingar í góðum málum

Knattspyrnufélag Rangæinga er komið með annan fótinn í undanúrslit 3. deildar karla eftir góðan 1-3 útisigur á Berserkjum í Reykjavík í dag.

Rangæingar byrjuðu betur í leiknum og komust í 3-0 í fyrri hálfleik með mörkum frá Reyni Björgvinssyni (2) og Þórhalli Lárussyni. Uppleggið fyrir leikinn heppnaðist vel en KFR lá aftarlega á vellinum og sótti hratt þegar liðið fékk boltann.

Staðan var 0-3 í hálfleik en leikurinn var langt frá því að vera búinn. Leikmaður Berserkja fékk rautt spjald fyrir brot snemma í fyrri hálfleik. Skömmu síðar fékk Maciej Majewski, markvörður KFR, rauða spjaldið þegar hann handlék boltann utan teigs og hinn ungi Przemyslaw Bielawski fékk það erfiða hlutverk að fara í markið en leysti það vel.

Á lokakaflanum fékk svo annar leikmanna Berserkja rauða spjaldið en þeir klóruðu í bakkann og skoruðu mark níu á móti tíu.

Seinni leikur liðanna er á Hvolsvelli á þriðjudag kl. 17:30 en staða KFR verður að teljast vænleg fyrir hann eftir að hafa skorað þrjú mörk á útivelli í dag.