Rangæingar fallnir

Hamar vann öruggan 5-0 sigur á KFR í Suðurlandsslagnum í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Rangæingar eru fallnir úr 2. deildinni þar sem Hamar og Grótta náðu bæði í stig í kvöld.

Fyrsta korterið var tíðindalaust á rennandi blautum Grýluvellinum. Fyrsta góða færi leiksins fengu Hamarsmenn þegar Ingþór Björgvinsson slapp einn innfyrir en þrumaði boltanum langleiðina að Friðarstöðum. Örfáum mínútum síðar fékk Abdoulaye Ndiaye boltann fyrir utan teig, lét vaða að marki og boltinn spýttist framhjá Bjarka Oddssyni í marki KFR, 1-0.

Hamarsmenn voru ákveðnari í kjölfar marksins og Ingþór átti skot að marki sem hafnaði ofan á þverslá KFR marksins á 28. mínútu. Strax í næstu sókn var Hjörvar Sigurðsson hársbreidd frá því að ná til boltans eftir fyrirgjöf Andrzej Jakimczuk hinu megin á vellinum.

Hamar komst í 2-0 á 31. mínútu þegar Ndiaye skallaði frábæra fyrirgjöf Arnar Rúnars Magnússonar framhjá Bjarka markmanni KFR.

Síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks voru Rangæingar meira með boltann en áttu erfitt með að skapa sér færi. Á 45. mínútu varð hins vegar vendipunktur í leiknum þegar dómarinn gaf Lárusi Viðari Stefánssyni, leikmanni og þjálfara KFR, sitt annað gula spjald fyrir vægast sagt litlar sakir. Örfáum andartökum síðar var flautað til leikhlés.

Manni færri áttu Rangæingar í erfiðleikum með að komast inn í leikinn framan af síðari hálfleik þar sem Hvergerðingar pressuðu og gáfu þeim engin grið. Fyrstu tuttugu mínúturnar í seinni hálfleik voru fjörugar þar sem hver sóknin af annarri dundi á vörn KFR.

Á 48. mínútu átti Sturlaugur Haraldsson skot rétt yfir markið og mínútu síðar var hann aftur hársbreidd frá að skora eftir darraðardans í vítateig KFR.

Á 51. mínútu kom Högni Haraldsson Hamri í 3-0 með “heppnaðri” fyrirgjöf af vinstri kantinum sem skoppaði inni á markteignum milli Guðbergs Baldurssonar og Bjarka markvarðar og þaðan í netið.

Örn Rúnar fékk gott færi til að auka forskot Hamars á 56. mínútu þegar hann skaut framhjá í góðu færi eftir hornspyrnu Hamars en tveimur mínútum síðar ógnuðu Rangæingar marki í fyrsta sinn í langan tíma. Mariusz Baranowski átti þá góðan sprett upp völlinn og sendi á Þórhall Lárusson sem lét vaða að marki. Björn M. Aðalsteinsson varði hins vegar skotið með miklum tilþrifum þrátt fyrir að engar sjónvarpsmyndavélar væru á vellinum.

Mínútu síðar átti Ndiaye skot framhjá fjærstönginni frá vinstri hinu megin á vellinum en þar var Senegalinn eigingjarn því samherjar hans voru í mun betri stöðu í vítateignum.

Bjarki Oddsson bjargaði tvívegis vel með góðum vörslum á 19. mínútu, í síðara skiptið í horn en uppúr hornspyrnunni skoraði Aron Smárason og kom Hamri í 4-0 þegar hann fylgdi á eftir bolta sem Bjarki varði en festi ekki hendur á.

Eftir þessar frábæru tuttugu mínútur misstu Hamarsmenn buxurnar algjörlega niður á hæla og hleyptu Rangæingum inn í leikinn. Jakimczuk átti skot að marki á 30. mínútu sem Björn varði í horn og uppúr hornspyrnunni átti Jakimczuk skot sem sleikti þverslána á marki Hamars. Mínútu síðar greip Bjarki vel inní hinu megin á vellinum þegar hann hirti boltann af tánum á Sene Abdalha í markteignum.

Síðasta korterið var ákaflega tíðindalítið en Rangæingar síst lakari þrátt fyrir að vera manni færri. Hvergerðingar veittu nágrönnum sínum þó náðarhöggið á 83. mínútu og aftur var það Örn Rúnar sem lagði upp með góðum bolta inn á teig og Ingvi Rafn Óskarsson kórónaði góðan leik sinn með því að skalla boltann í þverslána og inn.

Hamar er nú með 20 stig eftir fjóra sigra í síðustu fimm leikjum. KFR er hinsvegar á botninum með sex stig og er fallið niður í nýju 3. deildina þar sem Grótta og Reynir S gerðu markalaust jafntefli í kvöld.

UPPFÆRT KL. 21:54