Rándýrt tap á heimavelli

Gonzalo Zamorano kom mjög sprækur inná, skoraði og lagði upp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar töpuðu dýrmætum stigum í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld þegar Njarðvík kom í heimsókn á Selfoss.

Heimamenn voru algjörlega sofandi í upphafi leiks og Njarðvíkingar voru komnir í 0-2 eftir fimm mínútna leik. Selfyssingar héldu ró sinni og tóku leikinn smátt og smátt yfir í kjölfarið en fóru illa með dauðafæri. Þeim var refsað fyrir það á 41. mínútu þegar Njarðvíkingar áttu góða sókn og skoruðu þriðja markið, 0-3 í hálfleik.

Selfoss var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og á 57. mínútu gerði Dean Martin þrefalda skiptingu sem skilaði góðum árangri. Varamennirnir Aron Einarsson og Gonzalo Zamorano bjuggu mark þremur mínútum síðar sem Zamorano skoraði og á 74. mínútu skallaði þriðji varamaðurinn, Oskar Wasilewski boltann laglega í netið eftir sendingu frá Zamorano. Selfyssingum tókst hins vegar ekki að fylgja þessu áhlaupi eftir og féllu í gamla farið á lokakaflanum þar sem vantaði þolinmæði til þess að finna réttu tímasetningarnar til að komast innfyrir Njarðvíkurvörnina.

Gestirnir fögnuðu 2-3 sigri innilega í leikslok, enda komnir upp úr fallsæti eftir langa mæðu. Njarðvík er með 20 stig í 9. sæti en Selfoss fór niður í 10. sætið og er með 19 stig, einu stigi fyrir ofan Þrótt sem er í fallsæti.

Ægismenn úrkula vonar
Botnlið Ægis fór upp á Skaga og lék gegn ÍA sem er í 2. sæti í deildinni. Munurinn á liðunum var augljós. ÍA komst í 2-0 snemma leiks en þá tóku Ægismenn við sér en nýttu ekki færin. Staðan var 2-0 í hálfleik en eftir að Skagamenn skoruðu sitt þriðja mark, þegar hálftími var eftir, misstu Ægismenn alla von. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir ÍA sem bætti við fjórða markinu undir lokin, lokatölur 4-0.

Fyrri greinLokahelgi sýningar Guðrúnar Arndísar í Sesseljuhúsi
Næsta greinPerla Ruth með þrettán mörk í sigurleik