Rally Reykjavík hefst í dag

Alþjóðlega rallkeppnin Rally Reykjavík hefst í dag en þetta er þriggja daga keppni þar sem meðal annars verður ekið víða um Suðurland.

Meðal keppenda eru Selfyssingurinn Halldór Gunnar Jónsson og bróðir hans, Heimir Snær. Þeir aka nýuppteknum Jeep Cherokee og reynslan er næg um borð en Halldór Gunnar er að fara í sitt ellefta Rally Reykjavík og Heimir er að taka þátt í alþjóðarallinu í tíunda skipti.

Heimir ekur bílnum en Halldór er aðstoðarökumaður. Þeir bræður sigruðu í jeppaflokki í alþjóðarallinu í fyrra og lentu í áttunda sæti í heildina. Þeir stefna að sjálfsögðu á sigur í jeppaflokknum í ár en Cherokee-bíllinn hefur verið tekinn allur í gegn síðustu vikur. Meðal annars er mótorinn allur nýupptekinn og öflugri en áður.

Rallútgerð bræðranna nefnist PACTA Rallyteam en styrktaraðilar þeirra eru PACTA lögmannsstofa, Steypustöðin, Bíljöfur, Autoparts, sunnlenska.is, Vélaverkstæðið Kistufell og Óskar og Heimir múrverktakar.

Keppnin hefst síðdegis í dag en þá verður ekið í nágrenni Hafnarfjarðar og í Kópavogi. Á föstudag verður m.a. ekið í kringum Heklu og um Dómadal og á laugardag verða eknar sérleiðir um Hengil, Tröllháls og Kaldadal, svo eitthvað sé nefnt.

Átján áhafnir eru skráðar til leiks í keppnina, þar af sex erlendar en tvær aðrar sunnlenskar áhafnir eru skráðar til leiks. Það eru þeir Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson sem aka Subaru Impreza og má reikna með því að þeir verði í toppbaráttunni í keppninni ef allt gengur upp. Á hinum enda töflunnar verða væntanlega Óskar Jón Hreinsson í Halakoti í Flóa og Örn Dali Ingólfsson en þeir aka reynslumiklum Trabant 601 og eins og gjarnan hjá Trabanteigendum er öruggur akstur í fyrirrúmi þar.

Fyrri greinStefnt að opnun 1. febrúar
Næsta greinSaga kvennaknattspyrnunnar á Selfossi – II