Ragnheiður sæmd gullmerki UMFÍ

(F.v.) Sigurður Óskar, Sigurður Eyjólfur, Sif og Ragnheiður. Ljósmynd/Umf. ÁS

Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar Ungmennafélags Íslands, var sæmd gullmerki UMFÍ á sambandsþingi Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu á dögunum.

Ragnheiður sat lengi í stjórn USVS, var formaður sambandsins um margra ára skeið og einnig framkvæmdastjóri um tíma. Hún byrjaði í stjórn Ungmennafélagsins Drangs aðeins 14 ára gömul og var einnig formaður Umf. Kötlu eftir sameiningu félaganna.

Í stjórnarstarfi frá unglingsaldri
Sigurður Óskar Jónsson, sem situr í stjórn UMFÍ, var gestur þingsins fyrir hönd UMFÍ og afhenti hann Ragnheiði gullmerkið. Hann rifjaði upp að Ragnheiður hafi komið inn í varastjórn UMFÍ árið 2013.

„Þá var ég að mæta á mitt annað UMFÍ þing, en hún líklega á sitt fimmtánda, en hver er svo sem að telja. Við kynntumst svo aðeins í eftirminnilegri Danmerkurferð vorið 2015, en eftir að ég kom sjálfur inn í varastjórn UMFÍ 2015 og hún tók sæti í aðalstjórn, einmitt á þingi í Vík, hafa kynni okkar aukist til muna,“ sagði Sigurður og taldi upp að Ragnheiður hefur alla tíð verið mjög virk í félagsmálum. Undanfarin ár hefur hún verið formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ auk þess að vera varaformaður UMFÍ um tíma.

Sigurður rifjaði jafnframt upp að Ragnheiður hefði sagt sér að hún hafi mætt á öll Unglingalandsmót UMFÍ frá upphafi, eða frá árinu 1992. Hún hlaut starfsmerki UMFÍ árið 2011.

Sif og Sigurður hlutu starfsmerki
Tvö starfsmerki UMFÍ voru afhent á þinginu. Þau hlutu Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sif Hauksdóttur. Sif hætti nýverið sem formaður Ungmennafélagsins Kötlu eftir langt starf fyrir félagið. Hún hefur jafnframt verið ritari í stjórn USVS síðustu ár. Sigurður Eyjólfur hlaut starfsmerkið fyrir framlag sitt til íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vestur-Skaftafellssýslu.

Fyrri greinSelfoss úr leik í bikarnum
Næsta greinHvers vegna var Úlfar rekinn?