Ragnheiður valin íþróttamaður ársins

Ragnheiður Guðjónsdóttir, 16 ára frjálsíþróttakona, er íþróttamaður ársins hjá Ungmennafélagi Hrunamanna árið 2016. Valið var tilkynnt á aðalfundi félagsins sem fram fór í gærkvöldi.

Deildir félagsins skiluðu inn tilnefningum og var það samróma álit aðalstjórnar að Ragnheiður væri best að titlinum komin miðað við afrek hennar á síðasta ári.

Ragnheiður er virkilega efnileg íþróttakona sem hefur verið í stöðugri framför. Hún hefur náð mjög góðum árangri í mörgum greinum frjálsra íþrótta en hennar sterkustu greinar eru kastgreinarnar kúluvarp og kringlukast. Þar er hún í fremstu röð unglinga á Íslandi og stendur efst í báðum þessum greinum ef miðað er við besta árangur stúlkna í hennar aldursflokki. Ragnheiður er einnig efnilegur sleggjukastari og náði þriðja besta árangri 15 ára stúlkna í þeirri grein.

Ragnheiður varð þrefaldur Íslandsmeistari á árinu, vann bæði kúluvarp innan húss og kringlukast utan húss, auk þess að vera sigursveit HSK í boðhlaupi. Á Íslandsmeistaramótinu utan húss vann hún einnig silfurverðlaun í kúluvarpi og bronsverðlaun í sleggjukasti.

Á Unglingalandsmótinu gerði hún það heldur ekki endasleppt en þaðan kom hún heim með tvo Unglingameistarmótstitla, bæði fyrir kúluvarp og kringlukast. Ragnheiður setti nýtt HSK met í kringlukasti í sínum aldursflokki með kasti upp á 37,80m.

Jafnframt var Ragnheiður valin í Úrvalshóp FRÍ þar sem hún náði lágmarki bæði í kringlukasti og kúluvarpi árið 2016 og hefur tryggt sér sæti þar í ár.

Fyrri greinBrotist inn í tvö sumarhús við Laugarvatn
Næsta greinNýr hópur í Landgræðslu-skólanum