Ragnheiður og Þórdís með U15 í Köben

Hrunamenn eiga tvo fulltrúa í fimmtán ára stúlknalandsliði Íslands í körfubolta sem hefur leik á Kaupmannahafnarmótinu í Danmörku í dag.

Þetta eru þær Ragnheiður Björk Einarsdóttir frá Miðfelli 2a og Þórdís Jóna Kristjánsdóttir frá Flúðum. Báðar léku þær í vetur með liði 9. flokks Hrunamanna sem komst meðal annars í bikarúrslit í vetur.

Á Kaupmannahafnarmótið mæta landslið sem og úrvalslið borga eða héraða. Riðlakeppni hefst í dag og klárast á morgun en síðustu úrslitaleikirnir eru svo leiknir á sunnudag.

Ísland hefur titil að verja í keppni U15 ára stúlkna en íslenska liðið vann þetta mót fyrir ári síðan.

Ragnheiður og Þórdís mæta Dönum og Svíum í dag og Finnum í fyrramálið en seinni partinn á morgun verður leikið um sæti.

Fyrri greinSýslumaður verður á Selfossi og lögreglustjóri á Hvolsvelli
Næsta greinSkáldsagan Gosbrunnurinn komin út