Ragnar semur við Sundsvall Dragons

Körfuknattleiksmaðurinn Ragnar Nathanaelsson frá Hveragerði hefur samið við sænska úrvalsdeildarliðið Sundsvall Dragons en að loknum landsleikjum sumarsins á hann að mæta í herbúðir Drekanna þann 1. september næstkomandi.

Þetta kom fram í viðtali við Ragnar í þættinum Sportþátturinn Mánudagskvöld á Suðurland FM í kvöld.

„Þetta er draumurinn, tala nú ekki um að fá að taka fyrstu skrefin í atvinnumennskunni með Hlyn Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson sér við hlið,“ sagði Ragnar glaður í bragði þegar karfan.is tók hann tali í kvöld.

Hlutirnir gerðust hratt hjá Ragnari sem hóf samskipti sín við Sundsvall á fimmtudag í síðustu viku en hefur nú gengið frá samningi við klúbbinn. „Það er gaman að segja frá því að ég var í vinnunni þegar samningurinn kom til mín og ég bað þar vin minn að fara með mér afsíðis og sýndi honum tölvupóstinn og faðmaði hann svo vel og innilega. Hann varð svo glaður að hann lyfti mér upp,“ sagði Ragnar sem átti magnað tímabil með Þór Þorlákshöfn en liðið varð þó að játa sig sigrað í 8-liða úrslitum þetta árið.

„Ég get varla verið annað en sáttur, mér líður bara eins og ég sé allt annar leikmaður. Baldur Þór liðsfélagi minn kenndi mér t.d. að lyfta upp á nýtt, sagði mér að gluteus maximus-inn á mér væri bara óvirkur, að ég væri bara að draga áfram á mér rassinn en nú hef ég t.d. lært að nota hann,“ sagði Ragnar kíminn en hann er þó einlægur þegar hann þakkar fyrir tímann sinn í Þorlákshöfn.

„Ég hef lært heilmikið, það er nefninlega þannig að nemandinn lærir ekki nema hann sé tilbúinn til þess að læra og eftir að ég bragðaði á landsliðinu langaði mig ekkert meira en að verða bara betri. Þór Þorlákshöfn gaf mér tækifærið til þess að verða betri og þeim verð ég eilíft þakklátur sem og hjónunum Jóhönnu og Ragnari sem eru vitaskuld herra og frú Þorlákshöfn. Þau héldu mér einfaldlega uppi og magnað hvað þau ganga langt og eru tilbúin til þess að ganga langt fyrir klúbbinn.“

Aðspurður um hvernig Ragnar ætlaði að takast á við atvinnumennskuna sagði hann: „Ég ætla að sýna mg og sanna að ég eigi heima þarna. Ég er að fara í lið þar sem ég verð að berjast fyrir mínútunum og það sagði Hlynur mér. Hugur minn er klár í að mæta bara strax á morgun og byrja að berjast. Fyrst er þó landsliðsverkefni sumarsins og ég ætla mér að sýna meira þetta sumarið en það síðasta,“ sagði Ragnar sem verður vísast í landsliðinu þann 27. ágúst sem er síðasti landsleikurinn og jafnframt afmælisdagur Ragnars. „Ég fæ síðasta leikinn í afmælisgjöf og held síðan til Svíþjóðar.“