Ragnar með tröllatvennu

Nat-vélin var betri en enginn í kvöld.. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamarsmenn halda toppbaráttunni í 1. deild karla í körfubolta í mikilli spennu. Hamar vann Fjölni í kvöld en Selfoss tapaði fyrir Ármanni.

Leikurinn í Dalhúsum var jafn í fyrri hálfleik og Fjölnir leiddi í leikhléi, 46-44. Hamar tók leikinn í sínar hendur í 3. leikhluta og jók forskotið enn frekar í 4. leikhluta en lokatölur urðu 79-91. Ragnar Nathanaelsson var yfirburðamaður á vellinum með 27 stig og 24 fráköst fyrir Hamar. Elías Bjarki Pálsson skoraði 18 og Björn Ásgeir Ásgeirsson 16.

Selfoss mætti Ármanni í kaflaskiptum leik á útivelli. Framan af var allt í járnum en Ármenningar áttu 2. leikhlutann og leiddu í leikhléi, 49-38. Þriðji leikhluti var í járnum en Selfyssingum tókst ekki að brúa bilið í þeim fjórða og lokatölur urðu 86-75. Arnaldur Grímsson var öflugur fyrir Selfyssinga með 19 stig og 10 fráköst, Gerald Robinson skoraði 18, Ísak Júlíus Perdue 12 og Birkir Hrafn Eyþórsson 10.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 2. sæti með 32 stig, jafnmörg stig og topplið Álftaness sem hefur leikið einum leik færra. Selfoss er í 5. sæti með 16 stig.

Fyrri greinFjölnismenn lásu yfir ungmennunum
Næsta greinLaun bæjarfulltrúa og nefndarmanna lækkuð um 5 prósent