Ragnar með risatvennu gegn Ármanni

Hamarsmenn eru að fikra sig upp í efri hlutann á 1. deild karla í körfubolta en í kvöld sigruðu þeir Ármenninga á heimavelli, 106-87.

Hamar leiddi frá upphafi, komst í 9-2 á fyrstu mínútunum og leiddi 32-21 að loknum 1. leikhluta. Munurinn hélst svipaður í 2. leikhluta en staðan í hálfleik var 60-45.

Ármenningar minnkuðu muninn niður í tíu stig, 60-50, í upphafi seinni hálfleiks en Hamarsmenn héldu ró sinni og juku forskotið strax aftur. Staðan var 83-69 þegar fjórði leikhluti hófst. Gestirnir voru ekki hættir og þeir gerðu áhlaup í upphafi 4. leikhluta sem skilaði þeim sex stigum í röð, 85-75. Nær komust Ármenningar ekki því Hamar bætti í og vann að lokum með nítján stigum, 106-87.

Brandon Cotton var stigahæstur Hamarsmanna með 25 stig. Ragnar Á. Nathanaelsson stóð hinsvegar uppúr hjá Hamri með 20 stig, 19 fráköst og þrjú varin skot. Louie Kirkman skoraði 17 stig, Halldór Gunnar Jónsson 14 og Bjartmar Halldórsson 11 auk þess að senda 7 stoðsendingar.

Hamar hefur átta stig í 6. sæti deildarinnar, eins og ÍG og Breiðablik sem raðast ofar. Skallagrímur og Höttur eru í 2.-3. sæti með 10 stig en Ísfirðingar virðast ætla að eigna sér toppsætið og eru taplausir þar með 14 stig.

Fyrri greinNálægt stigi í lélegum leik
Næsta greinFjórði sigur Þórs í vetur