Ragnar markahæstur í tapleik á Selfossi

Ragnar Jóhannsson skoraði sjö mörk og var markahæsti leikmaður U21 árs liðs Íslands í handbolta sem tapaði fyrir Noregi á Selfossi í kvöld, 32-35.

Fjórir Selfyssingar eru í landsliði Íslands; Ragnar, Guðmundur Árni Ólafsson og Bjarki Már Elísson auk þjálfarans Einars Guðmundssonar. Bjarki Már skoraði 2 mörk í leiknum og Guðmundur 1.

Norðmenn byrjuðu betur og náðu þriggja marka forskoti snemma í leiknum en Ísland kom til baka og náði forystunni undir lok fyrri hálfleiks. Norðmenn skoruðu hins vegar síðasta mark fyrri hálfleiks og jöfnuðu 15-15.

Norska liðið náði tveggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks og voru skrefinu á undan mest allan hálfleikinn. Munurinn varð mestur fimm mörk en Íslendingar tóku við sér og náðu að minnka muninn í eitt mark á lokakaflanum en tefldu fulldjarft í sókninni til að jafna og fengu tvö norsk mörk í bakið.

Ragnar var sem fyrr segir markahæstur hjá Íslandi en Guðmundur Hólmar Helgason og Oddur Grétarsson skoruðu báðir 6 mörk, Róbert Hostert 5, Ólafur Guðmundsson 3, Bjarki Már 2 og þeir Halldór Guðjónsson, Heimir Heimisson og Guðmundur Árni voru allir með 1 mark.

Hjá Noregi var Simen Strømberg markahæstur með 7 mörk og Gøran Sørheim skoraði 6. Markvörður norska liðsins, Tor Christian Sæbø, reyndist Íslendingum erfiður ljár í þúfu en hann varði oft ágætlega.