Ragnar í úrvalsliðinu

Selfyssingurinn Ragnar Jóhannsson skipar stöðu hægri skyttu í liði 8.-14. umferða í N1-deild karla í handbolta.

Ragnar hefur farið á kostum með Selfyssingum í vetur og borið uppi sóknarleik þeirra. Það kom mörgum á óvart að Ragnar var ekki valinn í lið 1.-7. umferðar en hann er markahæsti leikmaður deildarinnar og var frábær framan af vetri.

Kunngert var um valið 8.-14. umferða í dag en þar voru Akureyringar skiljanlega aðsópsmiklir. Auk þess að eiga þrjá leikmenn í liði umferðanna var markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson valinn besti leikmaðurinn, Atli Hilmarsson besti þjálfarinn og Akureyri fékk viðurkenningu fyrir bestu umgjörðina.

Þeir Hlynur Leifsson og Anton Gylfi Pálsson voru valdir bestu dómararnir.

Lið umferða 8-14 í N1-deildinni er þannig skipað:
Markvörður: Sveinbjörn Pétursson, Akureyri
Línumaður: Atli Ævar Ingólfsson, HK
Vinstra horn: Oddur Gretarsson, Akureyri
Hægra horn: Einar Rafn Eiðsson, Fram
Vinstri skytta: Heimir Örn Árnason, Akureyri
Hægri skytta: Ragnar Jóhannsson, Selfoss
Miðjumaður: Ásbjörn Friðriksson, FH