Ragnar á leið til Kína

Körfuknattleiksmaðurinn Ragnar Nathanaelsson, Þór Þorlákshöfn, er í landsliðshópi Íslands sem heldur til Kína í næstu viku og tekur þar þátt í sterku alþjóðlegu móti.

Auk kínverska og íslenska landsliðsins taka þátt lið Makedóníu og Svartfjallalands sem eru að undirbúa sig fyrir lokakeppni Evrópukeppninnar sem fram fer í Slóveníu í september.

Íslenska landsliðið er þessa dagana að búa sig undir þátttöku í undankeppni Evrópukeppninnar sem hefst í byrjun ágúst en leikið verður um eitt sæti á Eurobasket 2015 í Úkraínu. Ísland verður í riðli með Rúmeníu og Búlgaríu.

Ísland sendir ellefu leikmanna hóp til Kína og er Ragnar eini Sunnlendingurinn í hópnum. Í morgun kom í ljós að Jón Arnór Stefánsson þarf að hvíla í 10 daga en hann á við smávægileg meiðsl að stríða. Hann verður klár í slaginn fyrir leikina gegn Dönum og Evrópuleikina. Því miður var ekki hægt að fá áritun til Kína fyrir leikmann í hans stað með svo stuttum fyrirvara svo það fara 11 leikmenn í þessa ferð.

Fyrri greinTveir handteknir eftir viðamikla leit
Næsta greinHaldið föngnum í húsi á Stokkseyri í langan tíma