Ragna er sjálfboðaliði Suðurlands árið 2025

Rakel Magnúsdóttir, svæðisfulltrúi, afhenti Rögnu viðurkenninguna í dag. Ragna var að sjálfsögðu í vinnunni í fyrirtæki hennar og Guðmundar Árnasonar, Baldvini og Þorvaldi, sem hefur stutt myndarlega við íþróttastarfið á Suðurlandi til áratuga. Ljósmynd/UMFÍ

Ragna Gunnarsdóttir er sjálfboðaliði Suðurlands árið 2025. Ragna er ein af fjölmörgum sjálfboðaliðum sem voru tilnefnd úr Hestamannafélaginu Sleipni á Selfossi. Það gríðargóða starf sem er unnið hjá félaginu á öllu því góða fólki mikið að þakka.

Ragna hefur verið formaður reiðhallarnefndar til nokkurra ára. Hún, ásamt reiðhallarnefnd, hafa haft umsjón með eftirliti og almennu viðhaldi á reiðhöllinni. Hún hefur einnig alltaf verið boðin og búin til að hjálpa til við hina ýmsu viðburði hvort sem það sé vegna móta eða annarra viðburða á vegum félagsins.

Dagur sjálfboðaliðans er í dag og var í ár tekið upp á þeirri skemmtilegu nýbreytni hjá Svæðisstöðum íþróttahéraðanna að velja sjálfboðaliða ársins. Fyrirkomulagið var með þeim hætti að sjálfboðaliðar voru tilnefndir á flestum svæðum og var dregið úr innsendum tillögum.

Með valinu er heiðrað það mikilvæga starf sem sjálfboðaliðar um allt land vinna, en án þeirra væri íþróttastarf víða einfaldlega ekki mögulegt. Sjálfboðaliðar gegna lykilhlutverki og eru ómissandi stoð í starfi íþróttahreyfingarinnar.

Fyrri greinFélagar Bjössa bónda unnu sveitakeppni HSK