Rafmagnaður sigur Þórsara

Luciano Massarelli skoraði 27 stig í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs unnu nauman sigur á Breiðabliki á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Smáranum urðu 102-104.

Þórsarar hófu leikinn af krafti og leiddu 16-27 að loknum 1. leikhluta. Það var hins vegar enginn meistarabragur á Þórsurum í 2. leikhluta þar sem Breiðablik skoraði 39 stig. Allar varnir lágu niðri og staðan var 55-49 í leikhléi.

Þriðji leikhlutinn var í járnum, Þór jafnaði 64-64 þegar rúmar fimm mínútur voru liðnar af honum og leikurinn var hnífjafn í framhaldinu. Blikar tóku frumkvæðið í upphafi 4. leikhluta en Þórsarar létu ekki slá sig út af laginu og komust yfir, 94-95, þegar þrjár mínútur voru eftir.

Lokamínúturnar voru rafmagnaðar en Luciano Massarelli skoraði fimm síðustu stig Þórs og setti meðal annars niður risastóran þrist þegar 52 sekúndur voru eftir. Tæpt var það, en sigurinn þeim mun sætari.

Daniel Mortensen átti stórleik fyrir Þór, skoraði 31 stig og tók 12 fráköst. Glynn Watson skoraði 22 stig og Luciano Massarelli 21. Ronaldas Rutkauskas var sterkur með 15 stig og 18 fráköst og Ragnar Örn Bragason skoraði 6 stig og tók 6 fráköst. Þórsarar fengu hins vegar aðeins níu stig af bekknum, 6 frá Davíð Arnari Ágústssyni og 3 frá Emil Karel Einarssyni.

Með sigrinum jafna Þórsarar Grindvíkinga í toppsætinu en bæði lið eru með 10 stig. Breiðablik er í 9. sæti með 2 stig.

Fyrri greinÁtta í sóttkví eftir smit á Litla-Hrauni
Næsta grein29 í einangrun á Selfossi