Rænulausir Selfyssingar rönkuðu við sér í seinni hálfleik

Selfyssingar heimsóttu botnlið Þróttar í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Þróttarar leiddu allan fyrri hálfleik en Selfyssingar rönkuðu við sér í þeim síðari og innbyrtu öruggan sigur, 23-31.

Selfyssingar voru augljóslega vankaðir eftir tapið í Eyjum á laugardag og náðu ekki áttum fyrr en í síðari hálfleik. Þróttur leiddi í leikhléi, 16-15.

Ragnar Jóhannsson og Atli Kristinsson rifu sig upp í seinni hálfleik og sóknarleikur liðsins lagaðist til muna. Vörnin lagaðist einnig þegar leið á leikinn og Þróttur skoraði aðeins sjö mörk í síðari hálfleik.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk. Atli Kristinsson og Hörður Bjarnarson skoruðu báðir 5 mörk. Ástgeir Sigmarsson varði 7 skot í marki Selfoss og Birkir Fannar Bragason 1.

Nú er það endanlega ljóst að leikur Selfoss og Aftureldingar í lokaumferðinni er hreinn úrslitaleikur um hvort liðið tryggir sér sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Leikurinn fer fram á Selfossi á miðvikudagskvöld.

Fyrri greinUmferðaröngþveiti við Bröttufönn
Næsta greinSelfyssingur formaður Fáks