Selfyssingar náðu sér í rándýr stig í botnbaráttu 1. deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir heimsóttu Grindavík í gosmóðuna í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Það var ýmislegt fréttnæmt í aðdraganda leiksins. Leikurinn var færður á Vogaídýfuvöllinn eftir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum meinaði almenningi aðgang að Grindavík í vikunni. Þá vonuðust Selfyssingar til að Jón Daði Böðvarsson gæti spilað sinn fyrsta leik í sumar en keppnisleyfi tók ekki gildi í tæka tíð. Selfyssingar léku einnig án Frosta Brynjólfssonar sem meiddist á æfingu síðastliðinn mánudag.
En að leiknum sjálfum. Fyrri hálfleikurinn var lengst af tíðindalítill, Grindvíkingar sköpuðu sér betri færi en sáu ekki við Robert Blakala í marki Selfoss. Síðustu mínúturnar fyrir leikhlé voru hins vegar eign Selfyssinga og á 40. mínútu kom Ívan Breki Sigurðsson þeim yfir með laglegu marki. Jón Vignir Pétursson átti þá frábæra sendingu innfyrir og Ívan Breki náði að teygja sig fyrstur í boltann og lauma honum í netið.
Grindavík tók miðju og boltinn var aðeins búinn að vera í leik í 56 sekúndur þegar Aron Fannar Birgisson var búinn að tvöfalda forskot Selfyssinga. Hann sýndi mikla knattni í teignum og lagði boltann laglega framhjá markverði Grindvíkinga.
Staðan var 0-2 í hálfleik og Selfyssingar höfðu góð tök á seinni hálfleiknum, sem var rólegur framan af. Grindvíkingar reyndu að minnka muninn en Robert blakaði frá því sem þurfti. Bæði lið fengu dauðafæri á lokakaflanum en mörkin urðu ekki fleiri og Selfoss vann öruggan sigur.
Sigurinn reyndist Selfyssingum dýrkeyptur því á 87. mínútu meiddist fyrirliðinn Jón Vignir Pétursson, að því er virtist illa eftir samstuð og var hann borinn af velli.
Stigin þrjú lyfta Selfyssingum upp í 9 sætið með 13 stig en Grindavík er í 7. sæti með 14 stig.

