Pétur Rúðrik sigraði á Opna Selfoss

Pétur Rúðrik tekur við sigurlaununum úr hendi Sævars Þórs Gíslasonar frá Pílufélagi Selfoss. Ljósmynd/Þórólfur Sævar Sæmundsson

Grindvíkingurinn Pétur Rúðrik Guðmundsson sigraði á Opna Selfoss mótinu í pílukasti sem haldið var í Hvíta húsinu á Selfossi í dögunum.

Pétur Rúðrik sigraði Hallgrím Egilsson í úrslitum í A-deildinni en þeir Pétur og Hallgrímur eru báðir fyrrverandi Íslandsmeistarar og landsliðsmenn. Í B-deildinni sigraði Óskar Freyr Pétursson og heimamaðurinn Stefán Orlandi skoraði hæst í styrktarpílunni og vann gjafapakka að andvirði um það bil 200 þúsund krónur.

Þetta er í annað sinn sem Pílufélag Selfoss heldur Opna Selfossmótið. Eins og í fyrra var uppselt á mótið en 64 keppendur tóku þátt á laugardegi. Á föstudagskvöldinu var keppt í tvímenningi, þar sem 30 lið voru skráð til leiks.

Óskar Freyr Pétursson sigraði í B-deildinni. Ljósmynd/Þórólfur Sævar Sæmundsson
Fyrri greinGjafir frá velunnurum HSU
Næsta greinDauður hrafn á Selfossi með fuglaflensu