Pétur afgreiddi KB í framlengingu

Pétur Smári Sigurðsson skoraði sigurmark Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir í Þorlákshöfn verður eina sunnlenska liðið í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í næstu viku.

Ægir vann KB á útivelli í dag og þurfti framlengingu til þess að knýja fram úrslit. Staðan var 0-0 í leikhléi en KB komst yfir á 74. mínútu. Þorkell Þráinsson jafnaði metin á 81. mínútu og staðan var 1-1 eftir 90 mínútna leik.

Því var gripið til framlengingar og hún var markalaus allt þar til þrjár mínútur voru eftir af leiknum að Pétur Smári Sigurðsson tryggði Ægi sigurinn með marki eftir hornspyrnu.

Selfoss úr leik og KFR steinlá
Selfyssingar féllu úr keppni í Mjólkurbikarnum í dag eftir 3-2 tap gegn Aftureldingu á útivelli. Hrvoje Tokic kom Selfyssingum yfir með marki úr vítaspyrnu á 23. mínútu en á 30. mínútu jafnaði Afturelding metin. Staðan var 1-1 í hálfleik en heimamenn komust yfir strax á 5. mínútu seinni hálfleiks. Valdimar Jóhannsson jafnaði fyrir Selfoss á 71. mínútu en tveimur mínútum síðar skoraði Afturelding sigurmarkið. Selfyssingar sóttu þungt á lokakaflanum og fengu þrjú ágætis færi en inn vildi boltinn ekki.

Þá féll KFR sömuleiðis úr leik í 2. umferð Mjólkurbikarsins í dag en Rangæingar steinlágu á útivelli gegn Gróttu, 10-0. Staðan í hálfleik var 4-0.

Fyrri greinHljómeyki flytur stórvirkið Path of Miracles í Skálholti
Næsta greinBjarni ráðinn forstöðumaður þjónustustöðvar