Perla snýr heim

Perla Ruth komin aftur í Selfosspeysuna. Ljósmynd/UMFS

Perla Ruth Albertsdóttir snýr heim í sumar eftir fjögurra ára fjarveru, en hún hefur samið við handknattleiksdeild Selfoss til þriggja ára. Perla Ruth er bæði hornamaður og línumaður og er uppalin í Selfoss.

Hún spilaði með Selfoss í Olísdeildinni til ársins 2019 þegar hún söðlaði um og fór til Fram. Hún hefur spilað þar í fjögur ár og varð m.a. Íslandsmeistari í fyrra og bikarmeistari árið 2020 með liðinu.

Perla er með leikja- og markahæstu leikmönnum Selfoss, hún hefur spilað 137 leiki og skorað í þeim 457 mörk. Hún er fastamaður í landsliðinu og á 28 A-landsliðsleiki að baki og skorað í þeim 51 mörk. Þá hefur hún einnig verið valin íþróttakona Umf. Selfoss 2017 og 2018.

Í tilkynningu frá handknattleiksdeildinni segir að þar á bæ séu allir gríðarlega ánægðir að fá Perlu aftur heim og er ljóst að hún verður mikil styrking við meistaraflokk kvenna í Olísdeildinni næsta vetur.

Fyrri greinÁsa Björk ráðin prestur í Árborg
Næsta greinBaka 15.000 bollur fyrir Sunnlendinga