Perla Ruth og Elvar Örn íþróttafólk Árborgar 2018

Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir voru valin/kosin íþróttafólk Árborgar 2018. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir úr Ungmennafélagi Selfoss voru kosin íþróttakarl og íþróttakona Árborgar árið 2018. Kjörinu var lýst á verðlaunahátíð íþrótta- og menningarnefndar Árborgar í sal FSu í kvöld.

Perla Ruth var í lykilhlutverki hjá kvennaliði Selfoss í handbolta sem náði sínum besta árangri á síðasta tímabili og varð í 6. sæti Olísdeildarinnar. Henni hefur gengið vel á yfirstandandi tímabili og verið fjórum sinnum valin í lið umferðarinnar í fyrstu níu umferðunum. Hún er í 6. sæti yfir sterkustu leikmenn deildarinnar miðað við HB statz tölfræðina. Perla er orðin fastamaður í A-landsliðinu í handbolta og skilar ávallt miklu framlagi inni á vellinum.

Elvar Örn er sömuleiðis lykilmaður í karlaliði Selfoss í handbolta sem náði sínum besta árangri í sögunni á síðasta tímabili þegar liðið varð í 2. sæti í Olísdeildinni og féll úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins. Á yfirstandandi tímabili hefur Elvar verið valinn í lið umferðarinnar fjórum sinnum í fyrstu tíu umferðunum en Selfoss er í toppbaráttunni í deildinni. Hann lék mjög stórt hlutverk í Evrópuleikjum Selfoss í haust og hefur verið valinn í öll verkefni A-landsliðsins á þessu ári.

Ný aðferð við kosninguna
Aðferðinni við val íþróttafólks Árborgar var breytt að þessu sinni en skipuð var sérstök valnefnd sem gaf íþróttafólkinu stig og gilti mat nefndarinnar 80% á móti netkosningu sem var öllum opin og gilti 20%. Metþátttaka var í kosningunni og bárust yfir 1.000 atkvæði.

Hjá körlunum sigraði Elvar Örn með 94 stig. Þetta er annað þriðja í röð sem hann hlýtur titilinn. Annar varð júdómaðurinn Egill Blöndal úr Umf. Selfoss með 74 stig atkvæði og þriðji frjálsíþróttamaðurinn Kristinn Þór Kristinsson úr Umf. Selfoss með 42 stig. Egill og Kristinn urðu einnig í 2. og 3. sæti árið 2017.

Hjá konunum var mjög mjótt á mununum en Perla Ruth fékk 68 stig. Önnur í kjörinu varð frjálsíþróttakonan Hulda Sigurjónsdóttir úr Suðra með 52 stig og þriðja kylfingurinn Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr Golfklúbbi Selfoss með 49 stig.

Á verðlaunahátíðinni var á fimmta tug íþróttamanna og liða í Árborg heiðruð en það voru þeir sem unnu Íslands- eða bikarmeistaratitil á árinu. Auk þess úthlutuðu íþróttafélögin úr afrekssjóðum sínum. Þá veitti sveitarfélagið frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss hvatningarverðlaun íþrótta- og menningarnefndar 2018.

Fyrri greinAðkoman tók verulega á viðbragðsaðila
Næsta greinFimmtugasta hraðhleðslustöð ON opnuð við Geysi