Perla Ruth með þrettán mörk í sigurleik

Perla Ruth Albertsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á Aftureldingu á Ragnarsmóti kvenna í handbolta á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 34-30.

Heimakonur höfðu frumkvæðið framan af leiknum en Afturelding minnkaði forskotið niður í eitt mark fyrir hálfleik, 16-15. Selfoss náði mest sex marka forskoti í seinni hálfleik en smá spenna hljóp í leikinn á lokakaflanum þar sem Mosfellingar náðu að minnka muninn í þrjú mörk. Selfossvörnin hélt hins vegar vel í kvöld og að lokum unnu þær vínrauðu fjögurra marka sigur.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 13 mörk, Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 6, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Katla María Magnúsdóttir 4, Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Arna Kristín Einarsdóttir 2 og þær Katla Björg Ómarsdóttir og Rakel Guðjónsdóttir skoruðu sitt markið hvor. Cornelia Hermansson varði 13 skot í marki Selfoss.

Í hinum leik kvöldsins sigraði Valur Stjörnuna örugglega, 44-21 en staðan var 26-13 í hálfleik.

Fyrri greinRándýrt tap á heimavelli
Næsta greinÖrn bikarmeistari og 28 ára gamalt héraðsmet slegið