Perla Ruth í Fram

Ljósmynd/Fram

Kvennalið Fram í handbolta hefur fengið góðan liðsstyrk en landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir frá Eyjanesi í Hrútafirði gekk til liðs við þær bláklæddu á dögunum.

Perla Ruth, sem er 23 ára gömul, hóf að leika handbolta fyrir fimm árum síðan á Selfossi og hefur verið lykilmanneskja í meistaraflokki Selfoss. Hún hefur leikið 136 leiki fyrir félagið og skorað í þeim 457 mörk. Perla Ruth er afar fjölhæfur leikmaður og getur leikið bæði stöðu hornamanns og línumanns. Síðasta vetur var hún markahæsti leikmaður Selfoss með 108 mörk í 21 leik í Olísdeildinni.

Þá hefur Perla verið fastamaður í kvennalandsliðinu síðustu misseri, leikið 21 A-landsleik og skorað í þeim 34 mörk.

Þetta er ekki eina styrkingin sem Framarar fá frá Selfossi því fyrir skömmu skrifuðu stórskyttan Kristrún Steinþórsdóttir og markvörðurinn Katrín Ósk Magnúsdóttir undir samning við félagið.

Það kvarnast því nokkuð úr röðum Selfossliðsins sem féll úr úrvalsdeildinni í vor.

Fyrri greinJárnkrakkinn haldinn í fyrsta skipti
Næsta greinSverrir áfram á Selfossi