Patrick Berger æfir með Selfoss

Pepsi-deildarlið Selfoss er með tvo austurríska miðjumenn til reynslu þessa dagana.

Þetta staðfesti Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, í samtali við Fótbolta.net.

Leikmennirnir eru báðir miðjumenn en annar þeirra heitir Patrick Berger eins og hinn margfrægi knattspyrnumaður sem lék til að mynda með Liverpool. Berger er 26 ára gamall og lék síðast með Leoben í Austurríki sem er í C-deildinni þar í landi.

Leikmennirnir komu á Selfoss á föstudaginn en í samtali við Fótbolti.net segir Guðmundur að engin niðurstaða sé komin í þeirra mál. „Þetta eru ágætis fótboltamenn en virka ekki í sínu besta formi sem er skiljanlegt. Við munum skoða þetta á allra næstu dögum.“