Pachu skoraði sigurmark Selfoss

Selfyssingar hófu leik í Inkasso-deildinni í knattspyrnu þetta sumarið með sigri á nýliðum ÍR á heimavelli. Lokatölur urðu 1-0.

Leikurinn fór vel af stað á glæsilegum JÁVERK-vellinum. ÍR átti fyrsta færi leiksins en skömmu síðar skoruðu Selfyssingar eina mark leiksins.

Á 11. mínútu fengu Selfyssingar skyndisókn, JC Mack brunaði upp vinstri kantinn og renndi boltanum fyrir markið þar sem Pachu var mættur og renndi boltanum af öryggi í netið.

Selfoss var meira með boltann það sem eftir lifði fyrri hálfleik en færin voru ekki mörg, og ÍR-ingar voru nær því að jafna en Selfoss að bæta við forystuna.

Heimamenn höfðu nokkuð örugg tök á leiknum í síðari hálfleik og Elvar Ingi Vignisson átti hörkuskot í þverslána á 63. mínútu.

Undir lok leiks reyndu ÍR-ingar áhlaup og sóttu stíft á kafla en varð ekkert ágengt og leikurinn fjaraði út.

Selfyssingar byrja því vel í Inkasso-deildinni líkt og undanfarin ár, en þetta er þriðja árið í röð sem liðið vinnur heimasigur í 1. umferðinni.

Fyrri greinNafn kayakræðarans sem lést
Næsta greinSannfærandi sigur tryggði Selfyssingum sæti í Olísdeildinni