Pachu skoraði á afmælisdaginn

Karlalið Selfoss hóf keppni í Lengjubikarnum í knattspyrnu í dag þegar liðið mætti KR í Egilshöllinni. Lokatölur urðu 2-2.

Pachu hélt upp á 29 ára afmælisdaginn með því að koma Selfyssingum yfir á 11. mínútu leiksins en KR-ingar jöfnuðu á 29. mínútu. Fjörið var ekki búið í fyrri hálfleik því KR komst yfir á 42. mínútu en tveimur mínútum síðar jafnaði JC Mack fyrir Selfoss.

Seinni hálfleikur var markalaus þannig að lokatölur urðu 2-2.

Næsti leikur Selfoss er að viku liðinni gegn Leikni R, einnig í Egilshöllinni.