Óvæntur skellur í Ólafsvík

Dimitrije Cokic skoraði bæði mörk Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn töpuðu óvænt fyrir Víkingi Ólafsvík á útivelli í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 5-2.

Ólsarar komust yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Dimitrije Cokic jafnaði fyrir Ægi þegar korter var liðið af seinni hálfleik. Í kjölfarið brustu allar varnir hjá Ægi og Víkingar röðuðu inn fjórum mörkum í röð og breyttu stöðunni í 5-1. Cokic var aftur á ferðinni í uppbótartímanum með sárabótarmark fyrir Ægi en nær komust þeir gulu ekki.

Ægir situr nú í 3. sæti deildarinnar með 25 stig en Víkingur er í 8. sæti með 12 stig. Liðin í kringum Ægi á töflunni eiga öll leiki til góða um helgina.

Fyrri greinÁrlegt Kotmót í Fljótshlíðinni um versló
Næsta greinFlutt með þyrlu úr Laugavegshlaupinu