Óvæntur skellur í fyrsta leik

Katla María Magnúsdóttir skoraði þrettán mörk í kvöld, þrátt fyrir að vera í strangri gæslu ÍR-inga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í handbolta lenti í óvæntum vandræðum með ÍR í kvöld í fyrsta leik liðanna í einvíginu um sæti í Olísdeildinni í handbolta.

Selfoss lék í Olísdeildinni í vetur og varð í næstneðsta sæti á meðan ÍR varð í 2. sæti Grill-66 deildarinnar. Það var ekki að sjá í kvöld því ÍR vann öruggan sigur í Set-höllinni á Selfossi, 21-27.

ÍR leiddi allan tímann og komst í 3-7 í upphafi leiks og staðan í hálfleik var 12-15. ÍR skoraði þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og þar með var björninn unninn því Selfoss fann enga leið í gegnum frábæra vörn ÍR-inga.

Katla María Magnúsdóttir var í miklum ham og skoraði rúman helming marka Selfyssinga, 13/4 mörk. Tinna Soffía Traustadóttir skoraði 4 mörk úr 4 skotum og þær Rakel Guðjónsdóttir, Roberta Stropé, Karen Helga Díönudóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu 1 mark hver. Cornelia Hermansson varði 9 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu.

Ann­ar leik­ur­ liðanna fer fram í Breiðholtinu næstkomandi laug­ar­dag en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður í Olísdeildinni á næstu leiktíð.

Fyrri greinNíu sækja um skólastjórastarf
Næsta greinSumarsnjór heilsaði Sunnlendingum