Óvæntur hagnaður í Myntkauphöllinni

Tryggvi Sigurberg skoraði 4 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann glæsilega, og óvæntan sigur þegar liðið heimsótti Aftureldingu í Myntkauphöllina í Mosfellsbæ í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Selfoss hagnaðist þar um tvö stig og veitir ekki af í botnbaráttunni.

Afturelding var sterkari í fyrri hálfleik og komst í 14-10 eftir að Selfoss hafði jafnað 7-7 á upphafskaflanum. Staðan var 17-14 í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti, komst í 19-19 og náði forystunni í kjölfarið, 21-23. Selfyssingar héldu 2-3 marka forskoti eftir það, allt þar til Afturelding komst yfir 28-27 þegar tæpar sjö mínútur voru eftir. Það reyndist síðasta mark heimamanna í leiknum, Selfoss skoraði tvö síðustu mörkin og sigraði 28-29.

Hannes Höskuldsson og Anton Breki Hjaltason voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk, Elvar Elí Hallgrímsson og Tryggvi Sigurberg Traustason skoruðu 4, Gunnar Kári Bragason og Haukur Páll Hallgrímsson 3, Sölvi Svavarsson 2 og Hákon Garri Gestsson 1.

Selfoss er áfram í 11. sæti deildarinnar, nú með 7 stig en Afturelding er í 2. sæti með 15 stig.

Fyrri greinFrábær endurkoma í fjórða leikhluta
Næsta greinUppstilling viðhöfð hjá D-listanum í Hveragerði