Óvænt tap í Sandgerði

FSu tapaði óvænt fyrir Reyni Sandgerði í 1. deild karla í körfubolta í kvöld, 91-88.

FSu byrjaði betur í leiknum, skoraði fyrstu sjö stigin og komst í 9-14. Reynismenn létu þetta ekki slá sig út af laginu og jöfnuðu, 22-22, en FSu skoraði síðustu sjö stigin í 1. leikhluta og leiddi 22-29 að honum loknum. Annar leikhlutinn var jafn en Reynismenn skoruðu síðustu fjögur stigin í leikhlutanum og staðan var 46-48 í hálfleik.

Þriðji leikhlutinn var í járnum þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna. Staðan var 66-69 þegar 4. leikhluti hófst en FSu náði fljótlega ellefu stiga forskoti, 71-82. Þá kom 16-4 áhlaup frá heimamönnum sem komust yfir, 87-86, þegar 47 sekúndur voru eftir af leiknum.

Reynismenn sendu Selfyssinga á vítalínuna í kjölfarið þar sem Matt Brunell og Svavar Stefánsson skoruðu sitthvort stigið og í framhaldinu settu Reynismenn niður þrist og breyttu stöðunni í 90-88 með 22 sekúndur á klukkunni. Gísli Gautason reyndi þriggja stiga skot fyrir FSu sem geigaði, Reynir náði varnarfrákastinu og kláraði leikinn í kjölfarið á vítalínunni, 91-88.

Matt Brunell átti fínan leik fyrir FSu, skoraði 31 stig og tók 12 fráköst. Ari Gylfason lék sömuleiðis vel með 30 stig og Svavar Stefánsson skoraði 10 stig.

Þetta var fyrsti sigur Reynis í vetur og er liðið nú með 2 stig í 9. sæti en FSu hefur 4 stig í 7. sæti.

Fyrri greinSmith með stórleik í sigri á Fjölni
Næsta greinÖruggt hjá Hamri gegn ÍA