Óvæntur skellur á heimavelli

Kvennalið Selfoss tapaði óvænt fyrir Sindra á heimavelli í 1. deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-2.

Fyrri hálfleikurinn var markalaus en Selfyssingar sóttu meira og fengu nokkur ágæt færi. Á fjórðu mínútu síðari hálfleiks brast svo stíflan loksins þegar Magdalena Reimus kom knettinum í netið.

Selfoss var nær því að bæta við marki í kjölfarið en besta færi Sindra kom af vítapunktinum á 54. mínútu. Gestirnir fengu þá innihaldslausan vítaspyrnudóm en Chanté Sandiford leiðrétti hann snarlega og varði spyrnuna glæsilega.

Selfoss hélt áfram að sækja en færin voru ekki mörg. Sindrakonur áttu ágæta sóknir inn á milli og úr einni slíkri tókst Chestley Strother að skora á 72. mínútu. Þremur mínútum síðar fékk Sindri svo aðra vítaspyrnu og úr henni skoraði Phonetia Browne.

Allar tilraunir Selfyssinga strönduðu á þéttri vörn gestanna undir lokin en Erna Guðjónsdóttir fékk besta færi Selfoss til að jafna rétt undir lokin, en markvörður gestanna gómaði boltann á síðustu stundu.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 3 stig, að loknum þremur umferðum.

Fyrri greinÁrborgarar hvattir til að huga vel að heilsunni
Næsta greinAron Óli og Hörður dúxuðu í FSu