Ótrúlegur viðsnúningur í fyrsta tapi Selfoss

Hrvoje Tokic skoraði tvívegis fyrir Selfoss af vítapunktinum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði sínum fyrsta leik í Lengjudeild karla í knattspyrnu í sumar þegar liðið heimsótti Kórdrengi á Framvöllinn í kvöld. Eftir ótrúlegan viðsnúning í seinni hálfleik urðu lokatölur 4-3.

Selfyssingar litu vel út í fyrri hálfleik, Gonzalo Zamorano kom þeim yfir með góðu marki á 14. mínútu og tíu mínútum síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu þegar brotið var á Hrvoje Tokic innan vítateigs. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

Leikurinn snerist við í seinni hálfleik. Kórdrengir tóku hann í sínar hendur, byrjuðu af krafti og þegar korter var liðið kom ótrúlegur kafli þar sem þeir náðu að skora fjögur mörk á tíu mínútum. Selfyssingar voru gjörsamlega með buxurnar á hælunum en hysjuðu þó upp um sig á lokakaflanum og náðu að minnka muninn í 4-3 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Þrátt fyrir ágætar sóknir á lokakaflanum tókst Selfyssingum ekki að jafna.

Lokatölur 4-3 en Selfoss er áfram í toppsæti deildarinnar með 14 stig, einu stigi meira en Grótta sem á leik til góða.

Fyrri grein„Hefur gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið“
Næsta greinHamar tapaði í hörkuleik