Ótrúlegur sigur í framlengdum leik

Haukur Þrastarson skoraði 10 mörk, þar af þrjú úr vítum. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfyssingar eru komnir í 1-0 í einvíginu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta eftir frábæran sigur á Val í framlengingu á Selfossi í kvöld.

Fyrri hálfleikur var hin besta skemmtun, jafnt var á með liðunum framan af en þegar leið á náði Valur þriggja marka forskoti, 11-8. Selfoss tók þá leikhlé og jafnaði í kjölfarið, 13-13. Staðan var 17-17 í hálfleik og mikill hiti í húsinu.

Valsmenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu þriggja marka forskoti á nýjan leik, 20-17. Selfoss jafnaði 20-20 en þá tóku Valsmenn sig til og skoruðu fjögur mörk í röð. 

Selfossliðið gafst ekki upp og þeir komust yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar fimm mínútur voru eftir, 29-28. Lokakaflinn var æsispennandi en Haukur Þrastarson tryggði Selfyssingum framlengingu þegar hann jafnaði 30-30 á lokasekúndunum.

Selfoss skoraði fyrstu þrjú mörkin í framlengingunni og leiddi 33-32 þegar hún var hálfnuð. Þeir vínrauðu voru sterkari í seinni hálfleik framlengingarinnar og unnu magnaðan sigur, 35-34.

Haukur magnaður
Haukur Þrastarson átti algjörlega magnaðan leik fyrir Selfoss og skoraði 13 mörk. Guðni Ingvarsson og Árni Steinn Steinþórsson skoruðu báðir 5 mörk, Elvar Örn Jónsson 5/2 og Nökkvi Dan Jónsson 5/1. Hergeir Grímsson og Guðjón Baldur Ómarsson skoruðu svo sitt markið hvor.

Sölvi Ólafsson varði 11 skot í marki Selfoss og Pawel Kiepulski 5.

Liðin mætast næst í Valsheimilinu að Hlíðarenda á föstudagskvöld og leikur þrjú verður á Selfossi mánudagskvöldið 6. maí kl. 19:30.

Fyrri greinÆgir úr leik í bikarnum
Næsta greinSelfyssingar Íslandsmeistarar í 1. flokki