Ótrúlegt flautumark tryggði Selfyssingum sigurinn

Selfoss lenti heldur betur í kröppum dansi þegar liðið lagði 1. deildarlið Þróttar í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta í Laugardalshöllinni í kvöld.

Lokatölur urðu 26-27 en sigurmarkið var ótrúlegt. Þróttur var í sókn í stöðunni 26-26 en Sölvi Ólafsson varði síðustu tilraun Þróttara þegar fjórar sekúndur voru eftir úr dauðafæri. Frákastið hrökk til Árna Steins Steinþórssonar sem var fljótur að átta sig og skaut yfir endilangan völlinn í mark Þróttar um leið og lokaflautið gall.

Selfyssingar höfðu átt í mesta basli með 1. deildarliðið framan af leiknum. Selfoss var skrefinu á undan í fyrri hálfleik en Þróttarar voru aldrei langt undan. Heimamenn náðu 4-1 áhlaupi á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og leiddu 14-13 í leikhléi.

Þróttur náði þriggja marka forskoti í upphafi seinni hálfleiks en Selfyssingar svöruðu fyrir sig undir lokin og komust í 24-26 þegar fjórar mínútur voru eftir. Þróttarar voru hins vegar ekki hættir og jöfnuðu 26-26. Markvarsla Sölva og hið svakalega flautumark Árna Steins tryggði Selfyssingum hins vegar sigurinn.

Teitur með 8 mörk af vítalínunni
Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 11 mörk, þar af 8 af vítalínunni. Elvar Örn Jónsson skoraði 6, Haukur Þrastarson 4, Hergeir Grímsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 2 og Atli Ævar Ingólfsson 1. Haukur og Atli Ævar voru fremstir í flokki í vörninni með 7 og 6 brotin fríköst.

Sölvi varði 17 skot í marki Selfoss og var með 47% markvörslu og Helgi Hlynsson varði 3 skot og var með 30% markvörslu.

Selfyssingar eru því komnir í það sem handboltaheimurinn kallar „Final Four“ eða fjögurra liða úrslit, sem leikin verða ásamt úrslitaleiknum á einni helgi í Laugardalshöllinni 9.-10. mars.

Dregið á miðvikudaginn
Dregið verður í fjögurra liða úrslit í hádeginu næstkomandi miðvikudag. Með Selfyssingum í pottinum verða Haukar, Fram og Grótta eða ÍBV.

Fyrri greinVegagerðin segir lokanir fjallvega hafa sannað sig
Næsta greinBlikarnir sterkari í Iðu