„Ótrú­lega flott­ur leik­ur hjá okk­ur“

Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss er úr leik í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu eftir 0-2 tap gegn bikarmeisturum Breiðabliks á Selfossvelli í dag.

„Mér fannst þetta bara ótrú­lega flott­ur leik­ur hjá okk­ur. Mér fannst við vera með Blikana í köðlun­um lengst af þess­um leik. Við erum að skapa okk­ur fín­ar opn­an­ir og góð færi. Auðvitað er ég sár og svekkt­ur yfir því að vera bú­inn í bik­arn­um, ég hefði viljað fara á Laug­ar­dalsvöll, en á sama tíma er ég ótrú­lega stolt­ur yfir lík­lega okk­ar bestu frammistöðu í ár,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann og færin fjölmörg. Blikar komust yfir á 19. mínútu með afar slysalegu marki. Tiffany Sornpao, markvörður Selfoss, hreinsaði þá frá marki sínu en skaut beint í Öglu Maríu Albertsdóttu og af henni lak boltinn í markið. Selfyssingar áttu margar álitlegar sóknir en Blikar fengu betri færi og Sornpao varði oft vel í marki Selfoss.

Seinni hálfleikurinn fór mjög rólega af stað en síðustu tuttugu mínúturnar hertu Selfyssingar tökin og færðu sig ofar á völlinn. Færin voru þó af mjög skornum skammti og þegar komið var í uppbótartímann fengu gestirnir skyndisókn sem lauk með þrumuskoti frá Helenu Hálfdánardóttur í skeytin inn.

Breiðablik mætir því Val í úrslitaleik Mjólkurbikarsins þann 27. ágúst næstkomandi.

Fyrri greinTap í síðasta heimaleiknum
Næsta greinEggert ráðinn forstjóri Landeldis hf.